Færslur: 2008 Maí

25.05.2008 01:44

Deventer

Jæja söngsystur.

Það er nú að styttast í ferðina okkar og því aldeilis að færast yfir mann tilhlökkun. Mig langaði svo að vita hvert við værum eiginlega að fara og því fékk ég Google til lags við mig og eftir víðfeðma
leit hefur eftirfarandi komið í ljós:

Borgin Deventer virðist vera hin merkilegasta borg og falleg að auki af myndum að dæma. Hún er staðsett í héraðinu Overijssel við ána Ijssel. Íbúar eru 97.000. Frá Deventer er klukkutíma lestarferð til Amsterdam.

Deventer er ein elsta borg Hollands.

Borgin var víst rænd og brennd af VÍKINGUM árið 882. Hún var strax endurbyggð og varnarveggur reistur um borgina. Á götunni Stenen Wal er búið að grafa upp og endurgera hluta veggjarins.

Tveir þriðju borgarinnar eyðilögðust í bruna árið 1334.

Deventer var mikilvæg á miðöldum vegna legu borgarinnar. Stór skip gátu siglt upp ána Ijssel og komist til hafnar. Borgin var í sambandi Hansakaupmanna. (og við könnumst nú aðeins við þá er það ekki??)

Brink  er Akratorg Deventerbúa....eða meira svona eins og Austurvöllur kannski? Byggingar þar eru frá 1550 til 1900. Þar er mikið mannlíf, næturlífið er líflegt, markaður á föstudögum og laugardögum. Þar er einnig að finna bakaríið Bussink "Koekhuisje", þar sem hægt er að kaupa hina frægu hunangsköku Deventer-búa sem enginn má víst missa af.

Við Brink torgið er The Waag (Weighing-house) byggt árið 1550, er í dag byggðasafn Deventer. Utan á húsinu hangir 500 ára gamall suðupottur sem notaður var til að taka af lífi peningafalsara á miðöldum... áhugavert? Ég held nú það!

 

 

Lebuïnuskerk (Kirkja heilags Lebuins), sérstaklega fallega málað loft, og hægt að fara upp í turninn á sumrin þaðan sem er gott 360° útsýni yfir borgina.

 

 


 

Bergkerk er miðaldarkirkja staðsett uppi á lítilli hæð. Er nú nýlistasafn. Í kring eru fallegar gamlar götur í hverfi sem ber heitið Bergkwartier.

 

 

 

Mælt er með notalegum göngutúrum meðfram ánni Ijssel, eða siglingu á henni.Hægt er að fara á báti yfir ána, þar er að finna garð sem heitir Het Worpplantsoen og einnig gamla vindmyllu, De Bolwerksmolen.

"Deventer Summer Fun Fair" er árleg hátið, haldin fyrstu vikuna í júní. Þessi hátíð stendur yfir þegar við mætum á svæðið og lýkur henni á sunnudagskvöldið með flugeldasýningu og öðrum herlegheitum.

Fótboltalið Deventer heitir Go Ahead Eagles og nú verður gerð grein fyrir afrekum þeirra. Nei bara grín!

Hér er hægt að skoða vídeó af Deventer.

Hér eru nokkrar gagnlegar slóðir:
http://www.vvvdeventer.nl/engels/
http://www.reindervrielink.nl/English/Deventer.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Deventer

 

  • 1
Flettingar í dag: 25
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 11
Gestir í gær: 9
Samtals flettingar: 150288
Samtals gestir: 42654
Tölur uppfærðar: 4.12.2021 04:39:12
##sidebar_two##